|
Nýjar ljósmyndirDagbók viðbóta í ljósmyndasafnið
-
21.05.2009 -
-
29.11.2008 -
-
28.11.2008 -
-
26.11.2008 -
- 21.11.2008 -
- 05.02.2007 - Jæja, smá uppfærslur hér loks; fyrst er að nefna 170s bíl þeirra feðga Þórðar og Andra, en þeir fluttu þennan bíl inn frá Bandaríkjunum á síðasta ári. Ég fékk svo póst frá tveim einstaklingum í janúar um að 220 ponton bíll hefði sést fyrir utan bílageymslu þeirra Hinriks og Helga á Esjumel. Ég veit ekkert um þennan bíl, en hann virðist vera dálítið þreyttur. Einhverjum nokkrum myndum bætt við og eigandasaga lagfærð/uppfærð þar sem vitað er um breytingar.
- 31.10.2006 - Nú voru sumir orðnir svo langþreyttir að bíða eftir uppfærslu hér á þessum vef að mér voru farin að berast hótanir ef ég bætti ekki úr ráði mínu. Sumir höfðu einnig ítrekað sent póst með ábendingum sem undirstrikuðu þessa leti mína og sá ég að mér yrði ekki vært í Benz-samfélaginu nema ég úr bætti.
Hér hefur ýmislegt gerst í Benz-málum síðan í vor, en ætla ég að stikla hér á stóru til þess að grynnka aðeins því óunna efni sem safnast hefur upp.
Ber það helst að nefna fund Rúnars á 220S coupe bíl sem hann frumsýndi á landsmóti Fornbílaklúbbsins í sumar. Sögusagnir höfðu verið um að svona bíll hefði verið fluttur inn einhvern tíman, en það var bara orðrómur flokkaður sem þokukennd óskhyggja. En, flestum til mikillar undrunar, þá var einmitt slíkur bíll falinn í bílskúr hér á höfuðbogarsvæðinu. Haft var samband við Rúnar í vor og var hann beðinn að líta í gripinn og honum boðinn hann síðan til kaups. Þetta er bíll sem hafði verið fluttur inn á sínum tíma með það fyrir augum að hann yrði notaður sem leigubíll. Sá sem keypti bílinn áttaði sig ekkert á því hvað "coupe" þýddi og rak bara upp stór augu þegar bíllinn kom, enda var hann að sjálfsögðu ómögulegur til leigubílaaksturs. Það má annar lesa allt um sögu þessa bíls í Ponton kaflanum.
Næst ber að nefna að snemma í vor barst mér frétt af því að í bílskúr við Háaleitisbraut væri lítill hekkari sem hefði verið lokaður inn í bílskúr í 20 ár. Þetta reyndist vera 200 bíll, árgerð 1966. Íbúðin hefði verið seld og bíllinn hefði fylgt íbúðinni. Þar sem ég var einmitt ný búinn að selja 600SELinn þá fékk ég þá villtu hugmynd að kaupa þennan bíl og gera upp og nota til daglegs brúks. Af hverju ekki spurði ég sjálfan mig, því gamlir Benzar eru mitt áhugamál og að koma þessum bíl á götuna kostar mig ekki meira en drusla sem ég afskrifa á tveim til þrem árum. Ég er og var líka viss um að þessi bíll færi aldrei á götuna nema ég tæki til hendinni; örlög hans væri líklega annars bara annar bílskúr og önnur 20 ár. Því ekki að gera hann þokkalega upp og nota? Jæja, ég ætla alla veganna að prófa. Bílinn má skoða í hekkara-kaflanum.
Ég kom við á verkstæðinu hjá Jóhannesi Norðfjörð í sumar og var þar fyrir GUMMCO á Stjörnuspjallinu og var að segja honum frá W114/C bíl sem hann hafði verið að flytja inn frá Þýskalandi. Sjálfur kallar hann bílinn "dufthylkið", en eitthvað reyndist hann víst vera ryðgaðari en lýsingar að utan hljóðuðu og þegar gripurinn var lentur á klakanum. Myndir af bílnum eru komnar í w114/w115 kaflann.
Nokkrir félagar í Mercedes-Benz klúbbi Íslands lögðu land undir fót í haust og fóru norður í land að skoða gamlar ryðgaðar Benzdruslur. Þar var komið við á nokkrum bæjum þar sem bílum er beitt á tún ekki síður en skepnum. Einn af þessum stöðum er Þormóðsholt í Skagafirði en þar er, ásamt þó nokkrum w114/w115 bílum, einn 240D/lang 1974 módel sem ég bætti við í w114/w115 kaflann.
- 2.05.2006 - Jæja, svolítið er að lifna yfir W107 síðunni núna þessa dagana. Annarsvegar sendi Gunnar Már mér myndir af 280SLC '78 bíl sem kunningi hans sem býr í Frankfurt á. Hann var á landinu í síðasta mánuði og hittust þeir við Nauthólsvík og var gripurinn ljósmyndaður. Þetta er sérlega vel með farinn bíll, grænn að lit, sem var í eigu auðkýfings og bílasafnara þar til hann var keyptur til landsins. Síðasta sumar var einnig fluttur inn blár 350SLC '72 bíll og sendi eigandinn mér myndir af bílnum núna um helgina.
Myndir af þessum bílum eru nú komnar í w107 kaflann.
- 18.04.2006 - Nú yfir páskana var Óli Kol, sérlegur njósnari þessarar síðu, enn eina ferðina að réttur maður á réttum stað, því honum var boðið til Borganes nú um páskana í mat. Hann lét að sjálfsögu ekki þetta tækifæri fram hjá sér fara til skoða og ljósmynda 170V 1936 bílinn sem Sæmundur sérleyfishafi var að flytja til landsins. Hann myndaði hann í bak og fyrir og er afraksturinn kominn í 170/220 kaflann. Það kann kannski að vera undalegt að hafa kafla sem heitir "Elstu bílarnir" og setja svo elsta bílinn á landinu í annan kafla ;-), en þetta þýðir kannski að ég þurfi að endurskýra fyrsta kaflann eitthvað (bíður samt betri tíma).
- 05.04.2006 - Taka 1: Óli Kol hafði samband við mig fyrir nokkrum dögum og sagðist hafa frétt það af kunningja sínum að w108 bíl væri í portinu hjá Atlantsskip í Kópavogi. Við gerðum fljótlega tilraun til þess að fá að ljósmynda gripinn, en í það skiptið var vörðurinn ekki alveg tilbúinn til þess hleypa okkur inn. Óli þurfi greinilega að kippa í einhverja spotta fyrst, svo þetta beið betri tíma. Benz-útsendararnir voru nú samt ekki á því að grípa alveg í tómt svo farið var á næsta bæ til hans Jóhannesar Norðfjörð í Réttir bílar. Þar er nú oft ýmsa Benzana að finna, og ég vissi af ponton druslu með tuskutoppi sem hann lumar í portinu fyrir aftan verkstæðið sem ég hafði hug á að ljósmynda svona í sárabætur. Jói var nú ekki hrifinn af hugmyndinni og sagði að bíllinn væri nú varla hæfur til ljósmyndunar, en ég þekki hann nú betur en það að vita að honum er annt um allt sem byrjar á Mercedes og endar á Benz og sér sálina í aumustu ryðhaugum. Það segir nú líka mest um það hvaða gæðasál hann hefur sjálfur að geyma. Druslan var því ljósmynduð, en Jói var miklu spenntari að sýna okkur tveggja dyra w115 bíl sem hann var að gera kláran fyrir brúðkaup nokkrum dögum seinna. Þetta er hvítur coupe bíll sem skipti um eiganda hér fyrir stuttu og var hann inni í sprautuklefa skottlaus, hurðalaus, húddlaus, stuðaralaus og svona, og þessir sömu hlutir lágu á víð og dreif um verkstæðið í miðri uppgerð. Mér leist nú ekki á tímaáætlunina fyrir brúðkaupið, en ég vona að allt hafi nú gengið vel.
Taka 2: Nú var Óli búinn að kippa í réttu spottana til þess að gera aðra tilraun til þess að ljósmynda w108 bílinn hjá Atlantsskip. Í napurri nepjunni fórum við Óli því eftir vinnu í dag þarna út eftir með von um betri veiði. Narrinn og næðingurinn var svo napur að aðeins harðsvíruðustu útsendurum var úti sigandi. Í þetta skiptið gekk allt betur og gripurinn var ljósmyndaður. Þetta reyndist vera mjög fallegur 280SE 4.5 bíll sem greinilega er innfluttur frá Bandaríkjunum, og sennilega er hér um að ræða bílinn sem eitthvað var talað um á Stjörnuspjallinu síðasta haust. Þessi bíll er greinilega ný uppgerður og hefur bæði verið sprautaður og sætin lituð upp á nýtt. Hann er alveg sérlega fallegur að innan. Viðurinn undir framglugganum er það eina sem þarf aðeins að huga að. Þennan bíl þarf að fara að leysa út og koma undir þurrt, því hann á ekki eftir að fara vel þarna í saltrokinu við sjóinn. Við Óli vorum samt sammála um það lengd afturhurðarinn benti til þess að þetta væri SELur, þó svo merkið aftan á bílnum væri 280SE. Hér er svo Óli við stjörnustillingar, og það er spurningin hvort þetta sé alveg samkvæmt stöðlum GMG, hmmmm? Tilburðirnir og fótaburðurinn lítur a.m.k. vel út ;-)
- 24.03.2006 - Ég frétti að Reyðarfjarðar-benzinn væri staðsettur á planinu hjá Öskju og ákvað að kíkja þangað til þess að taka nokkrar myndir. Þær myndir sem ég hafði haft áður voru skannaðar ljósmyndir úr albúmi fyrrverandi eiganda sem ég hafði fengið lánaðar. Þess bíll var keyrður til Reyðarfjarðar árið 1984 og lagt inni í bílskúr og var lokaður þar inn þar til síðasta sumar þegar hann komst í nýjar hendur. Eigandi lýsti þessu þannig að hann hafi keypt bílinn þegar hann var ungur og stundaði sjóinn og átti sand af seðlum, hann hafi síðan ekið bílnum utan í vinstri hliðina með einverjum ærslagangi og orðið svo pirraður út í sjálfan sig að hann ók bílnum austur og lagði honum inn í skúr við hús foreldra sinna. Sjálfur bjó hann hér á höfuðborgarsvæðinu, en faðir hann tók bílinn reglulega út og hreyfði í gegnum árin. Hann lést síðan á síðasta ári og örlög bílsins komust þá í uppnám. Steinar sagði mér þegar ég heimsótti hann 2003 að margir hefðu reynt að kaupa bílinn, en hann hefði aldrei verið neitt áfjáður í að selja. Hann hefði gott tilboð í bílinn frá Reyðfirðingi, en sagði að hann myndi þá bara hafa samband ef hann afréði að selja, hann hefði jú alltaf það tilboð. Á síðast ári veiktist síðan Steinar og ákvað að selja bílinn og auglýsti á Fornbílavefnum. Ég held að sá sem keypti bílinn hafi einmitt verið umræddur Reyðfirðingur sem alltaf hafði langað í bílinn.
Þegar ég hafði lokið við að taka myndir af bílnum þarna á Öskjuplaninu ákvað ég að heilsa aðeins upp á Rúnar, en þegar ég kom inn var hann einmitt upptekinn við afgreiðslu. Ég settist því niður við glingurbarinn og tók að lesa í blaði. Þar sem mín Benz-eyru eru alltaf opin, þá tók ég eftir því að umræða Rúnars við kúnnann var eitthvað tengd fornbenzum, ég heyrði orð eins og "hekkari", "...var að flytja inn" og eyrun tóku kipp. Ég stóðst ekki mátið og gekk að þeim og blandaði mér í umræðuna. Í ljós kom að þarna var staddur maður sem er nýbúinn að flytja inn 220SE hekkara frá Bandaríkjunum. Þetta er víst bill sem þarfnast uppgerðar og ég tók loforð af eigandanum að hann hefði samband þegar tækifæri væri á að taka myndir af gripnum. Ég bíð bara spenntur!
...ég ákað síðan í leiðinni að gera smá breytingu á því hvernig ég færi inn upplýsingar um bíla á vefinn. Ég ætla að láta dagsetningu fyrir framan upplýsingatextann, þannig að augljóst sé á hvaða tíma hann á við. Ég byrjaði á því að uppfæra w108/w109 síðuna á þennan máta. Hitt kemur síðan við tækifæri.
- 20.03.2006 - Jæja, ég hringdi í gærkvöldi Óla Benzson til að mæla mér mót við hann í Vitatorgi til að taka myndir af M51. Við fórum síðan eftir vinnu í dag, skoluðum gripinn og ljósmynduðum við Perluna í veðri sem jaðraði við að geta kallast snjókoma. En þetta blessaðist allt og myndirnar eru komnar á sinn stað. Fallegur bíll hjá honum Óla sem ég vona að geri aldrei þá vitleysu að selja, þó að honum hafi dottið það í hug í fyrra.
- 17.03.2006 - Óli Benzson (Óli Kol) var að senda mér söguna á bakvið 280SE'71 bílinn sinn sem komin er nú í w108 kaflann. Nú þurfum við bara að finna góðan dag til að ljósmynda gripinn, en það verður gert við fyrsta tækifæri.
- 16.03.2006 - Það er einstaklega ánægjulegt þegar menn senda mér póst og eru fúsir til þess að upplýsa okkur hina um bíla sem eru í þeirra eigu. Það er allt of sjaldan sem þetta gerist. Ég segi þetta í tilefni þess að ég fékk póst fyrir nokkrum dögum frá manni sem flutti inn 350SLC '72 á síðasta ári. Fallegur bíll sem kominn er á sinn stað í 107 kaflann.
- 11.03.2006 - Sigurbjörn Helgason var að senda mér póst með þeim upplýsingum að óþekkta svarta pagodan væri í raun bíllinn sem hann Skúli í Oz flutti inn á sínum tíma. Hann kannaðist við felgurnar og ég efast ekki um að hann hafi rétt fyrir sér.
- 10.03.2006 - Ég fór á föstudaginn niður í Vitatorg til að taka einn montrúnt á 6.3, og hafði myndavélina meðferðis. Tilgangurinn var að taka myndir af taxanum hans Jóhannesar sem hann geymir í Vitatorgi. Myndir af M51 verða að bíða aðeins, því hann er bæði skítugur og erfitt að mynda annað en afturendann (ef vel er að gætt, þá má þó sjá bílinn á einni myndinn sem ég tók af taxanum. Ég fæ ekki betur séð en að þar glitti í M-51 til vinstri á myndinni). Ég verð að mæla mér mót við Óla Kol og fá hann til að þvo svo hægt sé að mynda þennan fallega bíl. Jæja, fyrst ég var á annað borð að hreyfa 6.3 og hafði ekkert sérstakt að fara á honum, ákvað ég að keyra bara yfir í Kópavoginn og heimsækja Jóhannes Norðfjörð í Réttir-bilar. Mér datt í hug að það gæti verið kannski möguleiki að plata hann að taka taxann út til að ljósmynda. Mér varð nú ekki að ósk minni í það skiptið, því Jóhannes er ný búinn að flytja verkstæðið um set og því mikið að gera, bæði í kringum það og verkefnin óþrjótandi. Okkur talaðist þó til að hittast á næsta góðviðrisdegi til að ljósmynda þann ljósbláa. Ég verð að segja að það er nú eins og oftast þegar ég fer að heimsækja þennan öðling, að þá er yfirleitt kjaftað lengi og þetta skiptið var engin undantekning. Ég hugsa nú að menn þurfi nú ekki að velta sér neitt sérlega lengi yfir því hvert umræðuefnið var.
- 07.03.2006 - Björgvin Ólafsson "S-maður" fyrir norðan var svo vinsamlegur að senda mér myndir af w108 bíl sem nágranni hans á Akureyri á. Þetta er 280SEL og er hann búinn að vera í eigu sama manns frá því 1972. Björgvin sendi mér einnig nýjar myndir af 250SE bílnum sínum sem kominn er á númerið A-6700.
Ég var bjartsýnn að halda að þessu innleggi dagsins væri lokið, því Björgvin er ekki hættur :) Hann sendi mér einnig myndir frá Hafralæk (skelfing er nú sorglegt að sjá 300 bílinn þarna) og ég notaði eina af myndum hans af ljósbláum 219 ponton sem er í eigu Ásgríms á Hafralæk. Hélt reyndar áður að þetta væri 220 bíll, en ég var með lélegar myndir af bílnum og dró bara þá ályktun.
Enn einn í safnið. Björgvin sendi mér mynd af 280SLC bíl sem reyndar hefur ekki verið á númerum síðan 1997, en hann lýtur vel út á myndunum.
Enn einn bíllinn sem Björgvin er búinn að senda mér upplýsingar um er 180 ponton, líklega 1954 móel, sem hann sá á Egilsstöðum, annarsvegar sumarið 1995 og hinsvegar fimm árum síðar eða sumarið 2000. Ári seinna segir hann að bíllinn sé horfinn, þannig að örlög hans í dag eru því ókunn.
Að lokum (?) er hér pagoda sem Björgvin Ólafs sá í Hafnarstræti fyrir um 10 árum síðan. Hvorki hann né ég vitum meira um þennan bíl, en endilega ef einhver veit meira þá má hinn sami hafa samband.
Sigurbjörn Helgason sendi mér síðan upplýsingar um tvo w107 bíla sem ég hef uppfært í þeim kafla. Hér er um að ræða upplýsingar um bílinn sem Sæmi rokk átti og 300SL bíll Páls Kára.
- 06.03.2006 - Það er náttúrulega til háborinnar skammar hvað langt er síðan þetta vefsetur var uppfært! Það er reyndar ekki svo að ég hafi ekki verið að finna nýja bíla, heldur hefur bara ekki unnist tími í að koma þessum myndum hér inn. Svo hefur mér vaxið það í augum eftir því sem verkefnin hafa safnast upp. Nú hef ég loks gefið mér tíma í að koma þessum myndum inn, en mikið af upplýsingum vantar. Ég vil endilega hvetja þá sem geta lagt eitthvað til málanna hvað það varðar að endilega senda mér línu á sv1@vks.is.
Þetta eru helstu viðbæturnar í safnið:
Jæja, svo verður maður að vera duglegri við þetta á þessu ári.... :o)
- 10.07.2004 - Rúnar yfirmaður í ponton deildinni hringdi í mig í síðustu viku og sagðist hafa fyrir tilviljun rekið augun í w116 bíl þegar hann átti erindi í Langagerði ofanvið Sogaveg fyrr í mánuðinum. Þetta er
blár 280SE sem greinilega hefur einhverntíman verið gerður upp og sprautaður.
- 25.06.2004 - Rúnar var að senda mér myndir að 180a 1959 ponton sem hann hafði sjálfur fengið sendar. Án þess að vita það nákvæmlega, þá held ég að þessi bíll sé staðsettur í Keflavík. Bíllinn er á leið í uppgerð.
- 11.06.2004 - Jæja, þá er loks hægt að hefjast handa við að uppfæra ljósmyndasafnið eftir langt hlé. Ástæðan er fyrst og fremst sú að lokað var á mig hjá fornbill.is og ég gat ekki fært inn breytingar. Nú hefur ljósmyndasafnið verið flutt yfir á Stjörnuna, sem náttúrulega er miklu betri staður, og hægt er að fara að byggja þetta upp aftur. Ég er búinn að stofna nýjan kafla fyrir W107 bílinn og einir fjórir bílar eru komnir þar inn. Einnig er ég búinn að bæta við nokkrum W116 bílum í þann kafla og eru eigendurnir beðnir um að hafa samband við mig varðandi nánari upplýsingar um bílana.
- 16.12.2003 - Sigurbjörn Helgason hringdi í mig í gær þar sem hann hafði komið auga á silfraðan 300SEL 3.5 í Garðabæ. Án þess að ég hafi staðfestingu á því, þá grunar mig að þetta sé bíll sem lengi vel var staðsettur í bílskúr við Stórahjalla í Kópavogi. Sá bíll var 1971 módel og bar síðast númerið G-11773. Frekari upplýsingar um bílinn eru vel þegnar.
- 10.12.2003 - Sigurður Pálsson á Akureyri skrifaði hér í dagbók vefsetursins og sagðist vera að gera upp 108 bíl og í framhaldi af því sendi hann mér tvær myndir af uppgerðinni. Hann á reyndar þrá 108 bíla; tvo 250S’67 og er annar sjálfskiptur og hinn beinskiptur, og síðan á hann einn 280S’71. Hann er að gera upp sjálfskipta 250S’67 bílinn og segist ætla að vera tilbúinn með hann á götuna næsta vor (2004). Það verður gaman að sjá myndir af honum þegar hann verður tilbúinn.
- 17.10.2003 - Sem fyrr voru árvökul Benzaugu GMG að störfum þegar þau skimuðu sjálfvirkt hans nánasta umhverfi þar sem hann ók fjölskyldu sinni erinda nálægt Kópavogskirkju. Í þröngri götu vestan kirkjunnar staðnæmdust augun skörpu snarlega við gamlan silfraðan w115 bíl sem þar stóð í tröð. Að sjálfsögðu var ekki beðið boðana við þennan fund og hringt snarlega í neyðarljósmyndara dellufélagsins til að ljósmynda fyrirbærið. Gerður var út leiðangur til þess að skoða gripinn nánar sem nú er kominn á sinn stað í StrichAcht kaflann.
- 12.10.2003 - Fyrir tveim árum þar sem ég ók mínum 280S’71 ráðherrabíl suður Kringlumýrarbraut áleiðis til Kópavogs sá ég í baksýnisspeglinum fallega Pagodu sem ég hafði ekki áður séð. Hér var um að ræða dökk vínrauðan bíl sem greinilega hafði verið smíðaður fyrir Bandaríkjamarkað af ljósabúnaði að dæma. Mér tókst með erfiðismunum að krota niður bílnúmerið sem ég síðar lét fletta upp í bifreiðaskrá. Aldrei tókst mér þó að ná tali af eigandanum eða bera bílinn nánari augum, en fann þó síðar lélega ljósmynd af honum í myndaalbúmum Fornbílaklúbbsins. Þessi mynd skannaði ég og hefur hún hingað til verið fulltrúi bifreiðarinnar hér á þessu vefsetri. Síðastliðinn föstudag sá ég síðan þennan sama bíl fyrir tilviljun standa við Höfðatún, en bíllinn hefur sennilega verið í einhverskonar aðhaldi hjá Ræsi. Að sjálfsögðu beið ég ekki boðana og ljósmyndaði gripinn og eru þessar ljósmyndir komnar í Pagodu kaflann.
- 25.09.2003 - Í hádeginu síðastliðinn fimmtudag fórum við Jóhannes Norðfjörð og heimsóttum bílageymslu Rúdólfs gjaldkera Fornbílaklúbbsins. Þar var að finna gaman hekkara, 230S ’65, sem sendibílstjóri nokkur hafði boðið Jóhannesi til kaups. Bíllinn er frekar ryðgaður í botni, en yfirbygging virðist vera í þokkalegu standi hvað það varðar. Eitthvað hefur eigandinn verið byrjaður að rífa bílinn, eflaust með ryðbætingu í huga eða til að kanna ástand hans. Bíllinn er kominn í hekeflosse kaflann.
- 18.09.2003 - Sigurbirni Helgasyni hlotnaðist 280SE w116 bíll nú fyrir skömmu og hefur hann nú flutt vagninn í bæinn sem annars var staðsettur í Borgarfirðinum. Allt er vænt sem vel er grænt, segir hann, og á hann nú tvo græna Benza og einn Packard’55 í litnum góða. Bílnum hefur verið bætt við í annars fátækri flóru 116 bíla hér á þessu vefsetri.
- 07.09.2003 - Fornbílaklúbbsmenn héldu sinn árlega varahlutamarkað við Esjumel um helgina og alltaf er gaman að mæta þangað og gramsa í draslinu. Í geymslum klúbbsins eru nokkrir Benzar sem þegar hafa verið ljósmyndaðir, en rýmra var um bílana í þetta skiptið en vanalega. Ég notaði þess vegna tækifærið og myndaði suma þeirra aftur. Það eru því komnar nýjar myndir af brúna 250 strich-acht bílnum, tveggja dyra 220SE’65 bílnum og rauða hekkaranum. Auk þess gafst mér einnig tækifæri á að líta inn í skemmuna sem er við hliðina á bílageymslum Fornbílaklúbbsins. Þar er alveg ótrúlegt safn af bílflökm sem eru eflaust gullmolar í augum eigendanna, en flestir þeirra eru á algerum byrjunarreit hvað uppgerð snertir. Magnið er rosalegt sem hlutfall af fjölda eigenda. Sérstaka lagni þurfti til að komast leiðar sinnar á svæðinu því að þarna er þétt setið og eigendur sjálfsagt ekki sáttir við að traðkað væri yfir bílflök, vélar og stuðara sem þarna voru á hverju strái. Viti menn, þarna innan um draslið fann ég nokkrar Benza sem féllu vel inn í einsleitt umhverfið. Jafnvel næmasta Benzauga hefði getað horft framhjá þeim án þess að taka eftir neinu. Fyrst kom í ljós sundurtættur 250S w108 bíll og síðan vel falinn út í horni var einn 220 Ponton.
- 17.08.2003 - Fornbílaklúbburinn fór í grillferð á Þingvelli í góðu veðri um helgina. Þar voru saman komnir nokkrir fallegir gamlir Benzar (og aðrar gerðir fyrir þá sem hafa smekk fyrir því) í fallegu veðri. Þarna voru reyndar engir óþekktir gæðingar á ferðinni sem ekki hafa verið ljósmyndaðir áður, en ég hafði alltaf verið óánægður með myndirnar af 170S bílnum sem ég hafði tekið. Úr þessu var bætt í þetta skiptið og einnig tókst mér að ná góðri mynd af Ponton bíl Steingríms og svöngum matargestum.
- 18.08.2003 - Óli Benzson hafði sín árvökulu Benzaugu með sér í sumarfríið og skannaði norðurlandið á leið sinni þar um sveitir. Við Eyjafjörð tókst honum að finna grænan 108 bíl, 280SE 3.5, 1972 módel, sem stóð utan við afvikið verkstæði. Bíllinn hefur staðið úti undanfarin ár og er farinn að láta á sjá. Innspýtingarheilinn í bílnum er bilaður og var ætlunin hjá eigandanum að gera bílinn upp, en ekkert hefur orðið úr því sem stendur og er bíllinn falur.
- 10.08.2003 - Það er víst búið að mála svörtu Pagoduna sem Skúli í Oz flutti inn á sínum tíma silfraða núna. Ég rakst á hana í Kópavoginum og tók af henni mynd sem nú er komin er í Pagodu kaflann.
- 10.08.2003 - Jæja, loksins einhver uppfærsla hér. Tilefnið er sumpart að eigandi tveggja dyra 250C 1972 módel sendi mér myndir af bílnum sem hann eignaðist nýverið. Bíllinn var staðsettur í blómaskálanum í Njarðvíkum um skeið, en hefur nú verið bjargað þaðan yfir í skúr eiganda, enda á að fara að rífa glerhúsið. Myndir af bílnum eru komnar í Strich-Acht kaflann. 280S bíll Hákons Árnasonar hefur nú verið fluttur yfir í Sólheimana í Benz-bílageymslu GMG. Hann hafði staðið í gám fyrir utan heimili eiganda og lá þar undir skemmdum vegna þess að gámurinn var hriplekur. Honum hefur nú verið forðað frá frekari skemmdum um stundar sakir, en óvíst er hvort eigandi bílsins hyggur á uppgerð á næstunni og gæti bíllinn lent í uppnámi þegar GMG missir húsnæðið í haust. Bíllinn hefur verið sandblásinn og grunnaður og er óhrjálegur að sjá. Ég tók myndir af bílnum í Sólheimunum og eru þær komnar á sinn stað í Keineflosse kaflanum. Hvíti 450SEL 6.9 bíllinn stendur nú í Kópavoginum og notaði ég tækifærið að ljósmynda bílinn þar sem fyrri myndir af bílnum voru teknar í húsasundi við Laugaveginn í kvöldbirtu og voru frekar óskýrar.
- 24.05.2003 - Ég er búinn að vera iðinn í vor við að hringja í eigendur gamalla Benza og sníkja myndatökur. Einn af þessum mönnum sem ég hef haft samband við er Hjalti Geir Guðmundsson eigandi af gylltum 300SEL 3.5 1971. Hann hafði samband við mig seinnipartinn í dag og bauð mér að taka myndir af bílnum. Hjalti var staddur í Ræsi þar sem verið var að yfirfara bílinn og við ákváðum að hittast við Höfða og ljósmynda bílinn þar. Myndirnar eru komnar á sinn stað í Keineflosse kaflann.
- 06.05.2003 - Sigurbjörn Helgason hringdi í mig í gær þar sem hann hafði komið auga á nýinnfluttan 170S 1950 árgerð á bílageymslusvæði Eimskips, eða Bílavöllum eins og það heitir. Ég fór síðan upp úr hádegi í dag með GMG á staðinn til að taka myndir. Bíllinn er að sjálfsögðu fyrir innan girðingu og átti ég þess aðeins kost að taka myndir yfir og í gegnum hana. Ég vona að bráðlega gefist tækifæri til þess að ná betri myndum af bílnum og ekki síst af framhliðinni.
- 01.05.2003 - Jónas Rafn frá Þormóðsholti sendi mér myndir af bíl bróður síns 250S árgerð 1966. Þessi bíll er merkilegur fyrir þær sakir að hann er einn af fyrstu w108 bílunum sem framleiddir voru og ber hann raðnúmerið 290. Þetta er án efa elsti keineflosse bíllinn á landinu að ég hygg. Bíllinn stendur nú úti og að sögn Jónasar þarf hann að komast í góðar hendur og er því til sölu (sem sjálfur eigandi reyndar þvertekur fyrir).
- 15.04.2003 - Ég fékk tölvupóst fyrir helgi frá manni sem bauð mér að ljósmynda 280SEL bíl teingaföður síns. Ég vissi reyndar ekkert hvort hér var um að ræða W108 eða W116 bíl, en í ljós kom að þetta var fyrrverandi bíll Geirs Hallgrímssonar sem er 1979 árgerð og þar af leiðandi af yngri gerðinni. Ég fór og heimsótti eigandann og ljósmyndaði bílinn sem er kominn í w116 kaflann. Einnig bætti ég við bíl í sama kafla sem ég tók mynd af við Skúlagötu, en hann hefur staðið þar seinnipartinn í vetur og er frekar lélegur.
- 13.04.2003 - Gunnar Már 280SE3.5 hafði samband við mig þar sem hann var á rúntinum í blíðviðrinu á sínum eðalvagni. Hann bauð mér í bíltúr og við héldum til Kópavogs og var ætlunin að banka upp á hjá Ólafi Kolbeins og taka út framgang mála með 280SE'71. Ekki náðist samband við kauða, þannig að við héldum í næstu götu og bönkuðum upp á hjá eiganda lítils hekkara sem staðið hefur þar úti í vetur. Ég hafði nú reynda bankað þarna upp á áður en enginn var þá heima þannig að ég ljósmyndaði bílinn án þess að hafa neinar frekari upplýsingar um hann. Í þetta skiptið var eingandinn heima og tók ég nokkrar myndir í viðbót. Þessum myndum hef ég bætt í safnið ásamt upplýsingum um bílinn.
- 25.02.2003 - Jónas Rafn frá Þormóðsholti sendi mér í morgun mynd og upplýsingar um 220 ponton 1955 módel sem stendur við Hólakot í Eyjafirði. Hann er víst búinn að standa þarna nánast óhreifður síðan 1972 þegar hann var gerður upp af eigandanum. Bíllinn er nú kominn í ponton kaflann.
- 25.02.2003 - Það var svo mikið vor í lofti hér á höfuðborgarsvæðinu í gær að Benzbræður gátu ekki annað en vaknað af værum vetrarblundi og farið að iða. Við Gunnar Már 280SE3.5 vorum ákveðnir að nota blíðuna og komast í vísindaleiðangur og í því skyni hófum við hringingar um allan bæ en uppskárum meiri upplýsingar en tilefni til vísindaferða þann daginn. Lögð voru þó drög að nokkrum spennandi vísindaferðum komandi vors þar sem a.m.k. þrír 300SEL 3.5 koma við sögu. Hringt var í alla eigendur 300SEL W109 bíla sem þekktir eru, en þeir eru 5 fyrir utan minn eigin bíl. Síðastliðið haust hafði ég samband við mann sem á rauðgylltan 300SEL 3.5 í bílskúr við Sæbraut vestur í bæ. Hann sagðist ætla að hafa samband þegar bíllinn yrði viðraður næst en ekkert hafði í honum heyrst og hringdi ég því aftur í gær. Hann sagðist ekkert hafa gleymt að hafa samband því ekkert hefði gerst og lofaði að hafa samband fyrir vorið. Ég hef lengi vitað af örðum 300SEL 3.5 í bílskúr í Kópavoginum og lét loks verða af því að hringja í eigandann í gær. Ég hringdi í GSM númer eigandans sem reyndist vera staddur einhverstaðar í Karabíska hafinu og var auk þess ný búinn að selja bílinn. Hann gat lítið tjáð sig við þessar aðstæður og bað mig um að hafa samband þegar hann kæmi aftur. Bilun í upplýsinganúmeri Umferðastofu kom síðan í veg fyrir að ég gæti haft upp á nýjum eiganda þann daginn. Gunnar Már hafði upplýsingar um einhvern 300SEL sem var til sölu fyrir einhverjum árum. Hann hringdi í uppgefið númer og reyndist þetta vera eigandi 300SEL 3.5 bílsins sem stendur í gámi við Höfn og er þegar kominn í ljósmyndasafnið. Ég hafði heyrt sögusagnir um mjög fallegan svartan 300SEL sem hafi verið á götunum hér fyrir einhverjum árum og síðan horfið. Ég hef haft upplýsingar úr bifreiðaskrá í nokkurn tíma sem mér þótti líklegt að væri sami bíllinn. Ég lét því verða af því að hringja í eigandann og reyndist sá bíll vera svartur og í góðu lagi þó hann hafi ekki verið á númerum í nokkur ár. Hann er nú staðsettur í bílskúr við Háaleitisbraut og er mjög líklega um sama bíl að ræða. Ég tók loforð af konu eiganda að hafa samband þegar þau ættu leið í skúrin næst. Að endingu hafið ég upplýsingar um rauðan 300SEL 3.5 sem hafði ekki verið á númerum síðan 1987 og mér fannst líklegt að væri kominn undir græna torfu. Ég ákvað þó að hafa samband við eigandann sem sagði að bíllinn væri í góðu lagi og hefði staðið inni í bílskúr á Reyðarfirði síðan 1984. Þetta kom mér dálítið á óvart og hefur eigandinn engin sérstök áform um að koma bílnum í gagnið á ný og heldur ekki að selja hann. Hann mun því koma til með að dúsa þarna áfram í bílskúrnum fyrir austan. Eigandinn var þó svo vinsamlegur að útvega mér myndir af bílnum sem ég skannaði inn í morgun og eru komnar í ljósmyndasafnið.
- 22.02.2003 - Ég frétti það nýverið að Jóhannes Norðfjörð væri búinn að kaupa hekkarann hans Rúnars Sigurjónssonar sem var á geymslusvæðinu í Hafnarfirði. Ég var dálítið hissa, því hann er með nokkra aðra bíla í uppgerð sem ekki hefur verið unnið í lengi og þar á meðal þrjá ponton. Þegar ég kom á verksæðið hans í Kópavogi kom í ljós að hann er búinn að kaupa annan hekkara, svartan, og ætlunin er að búa til einn bíl úr þeim báðum og á þá bíllin hans Rúnars að vera líffæragjafinn. Á verkstæðinu hjá Jóhannesi var einnig 200D 1968 sem verið var að skipta um miðstöð í. Báðir bílarnir eru nú komnir í viðeigandi kafla.
- 06.02.2003 - Maður að nafni Jónas frá Þormóðsholti í Skagafirði sendi mér póst ásamt myndum af Benzum sem þeir bræður hafa verið að safna. Mest eru þetta w123 bílar og w114/w115, en einnig eiga þeir w108 bíl og Jónas á hekkara 190 1965 módel. Ég bætti þeim síðastnefnda í Heckflosse-kaflann. Ég vonast síðan eftir því að fá fleiri nothæfar myndir frá bílasafni þeirra bræðra.
- 09.01.2003 - Við Rúnar Sigurjónsson heimsóttum í gærkvöldi Trausta Gunnarsson í Garðabæ sem hefur í nokkur ár verið að gera upp 1955 módel af 220 ponton. Bíllinn hefur nú verið sprautaður rauður, en hann var áður hvítur, og vinnur eigandinn að samsetningu hans í dag. Mikið er búið og töluvert er eftir en hér er verið að vanda til verka og ekkert kapphlaup við tímann í gangi. Eins og oftast þegar Benzmenn koma saman, þá er mikið spjallað um áhugamálið. Í þessum umræðum kom þ.a.m. fram að í sama bæjarfélagi leyndist annar 220 ponton. Báðir þessir bílar eru nú komnir í pontonkaflann.
- 09.12.2002 - Jæja, eftir dvala í hartnær tvo mánuði færist nú líf í Benz-setrið á ný. Á óformlegum stofnfundi Auðnustjörnunnar, einkaklúbb eigenda íslenskra fornBenza, í gærkvöldi gafst Benzbræðrum tækifæri á að skoða myndir úr ljósmyndasafni einhvers ötulasta bílaljósmyndara landsins sem týnt hafði til í albúm ýmsar myndir af Benzum og öðrum faratækjum (og jafnvel bílgrindum). Þar sá ég mynd af svörtum 220 bíl sem ég hafði vitað af í bílskúr í Breiðagerðinu um nokkurt skeið. Bíllinn stóð úti á myndinni og í ljós kom að hann hefur gert það síðan í haust. Ég freistaðist til að keyra þarna við í hádeginu til að athuga hvort bíllinn væri þarna ennþá, sem raunin var. Ég ljósmyndaði því bílinn og bætti honum við í 220 kaflann.
- 17.10.2002 - Þegar ég var að sækja 300 bílinn minn úr stillingu inn í Ræsi í gær, þá rakst ég fyrir tilviljun á silfurgráan 116 bíl (450SEL) sem stóð í Borgartúni. Þetta er mjög fallegur bíll og er líklega sprautaður nýlega eða þá bílnum er mjög vel við haldið.
- 08.10.2002 - Nokkuð lengi hefur staðið til að heimsækja Pál Kára og skoða bílageymsluna undir húsinu hans. Í gærkvöldi fórum við Gunnar Már og sóttum bílasafnið hans heim. Páll kvartar reyndar undan litlu plássi í bílskúrnum hjá sér, en við sem eigum svona venjulega bílskúra köllum þetta nú bílageymslu. Þarna er hann með fjóra Benza, snjósleða og annað dót og það kemst allt fyrir. Það skemmtilega við bílana hans er að þeir eru allir hver örðum fallegri og auk þess í góðu standi, að undaskildum einum sem hann er reyndar u.þ.b. búinn að selja. Í röð eftir aldri þá eru þetta blár 220SE/C'65 sem er í uppgerð, rauð Pagoda 280SL'68, gylltur 280SE3.5'71 og blár 300SL'86. Tveir fyrstu bílarnir voru þegar komnir hér á vefinn, en w108 bíllinn er nú kominn í keineflossekaflann. Ég tók auk þess nokkrar myndir af 220 bílnum sem ég bætti við í hans bás, en 300SL bíllinn er of ungur til að komast hér inn, þó fallegur sé. Myndirnar eru frekar dökkar þar sem við vorum þarna að kvöldlagi, en vonandi næ ég seinna betri myndum að degi til.
- 03.10.2002 - Benzbræður kalla nú ekki allt ömmu sína og sérstaklega þá ekki þegar sinna þarf áhugamálinu. Húsavíkurbíllinn hafði verið falur um tíma og Gunnar Már Benzson var búinn að gera munnlegt tilboð símleiðis. Til stóð að fara norður um helgina og skoða gripinn og sækja ef undir væntingum stæði, en hvernig er hægt að bíða og horfa á ljósmynd í heila viku og halda geðheilsu? Vonlaust. Það var ekkert annað að gera en panta sér far með síðdegisvélinni til Akureyrar strax í gær (ég er ekki viss hvort hann leigði nýju einkaþotuna, en það gæti þó verið) og gera eigandanum að mæta á flugstöðina hið bráðasta. Síðan var ekið á upplýst þvottaplanið á Essóstöðinni og vagninn skoðaður í flóðlýsingunni og skrifað undir samninga á hnjánum í framsætinu (kannski dálítið kryddað, en ég sé þetta samt alveg fyrir mér). Bifreiðinni var síðan flogið á 170km hraða suður heiðar og komið uppúr miðnætti í bæinn. Geri aðrir betur. Nýjar myndir af bílnum eru komnar í keineflossekaflann.
- 30.09.2002 - Óli Benzson hefur ekki síður árvökult Benzauga en kjörbróðir okkar Gunnar Már Benzson, því hann hringd í mig áðan þar sem hann hafði komið auga á keineflosse einhverstaðar djúpt í Rimahéruðum Grafarvogsléns. Þessi bíll á ættir sínar að rekja til Akraness og mun hafa alið þar bílinn síðustu árin. Hann hefur ekki hlotið náðuga daga í saltinu á Skaganum, því þó útlitið sé fjarskafagurt þá þolir það ekki nánari skoðun en kannski svona 50 metra. Sveitaómaginn hefur einhvern tíman smitast af holdsveiki og hefur hreppurinn sjálfsagt ekki viljað eyða fé í viðeigandi læknismeðferð fyrir greyið. Í dag stendur hann einn og yfirgefinn á malbiksplani langt frá heimahögunum og engum langar svo mikið sem að leggja við hliðina á honum eða sýna honum örlitla meðaumkun, nema ef vera skildi þeir Benzbræður sem virðast geta horft framhjá sjálfu útlitinu og séð sálina.
- 29.09.2002 - Gunnar Már Benzson hafði samband við mig fyrir nokkrum dögum og sagðist hafa séð silfraða Pagodu í næsta húsi við heimili bróður síns úti á nesi. Til hafði staðið að fara í Benzleiðangur vestur í bæ til að skoða þann bíl og aðra þegar hann hafði aftur samband við mig í dag, því nú höfðu árvökul Benzaugun numið aðra silfraða Pagodu þegar hann var í fjölskyldubíltúr í Kópavoginum. Ákveðið var að fara í sérstakan Pagoduleiðangur og slóst Rúnar Benzson bakteríubróðir okkar með í förina á ráðherrabíl Gunnars. Bílarnir eru nú báðir komnir í Pagodu kaflann.
- 26.09.2002 - Þegar ég fletti í gegnum myndaalbúm Fornbílaklúbbsins í Húnabúð í gær rakst ég á nokkrar myndir af gömlum Benzum sem staðsettir eru á Hafralæk hjá Ásgrími Þórhallssyni. Ber þar helst að nefna 300b 1955 sem var keyptur var til landsins á sínum tíma af ríkissjóði fyrir menntamálaráðuneytið en þá sat Gylfi Þ. Gíslason í stóli menntamálaráðherra. Einnig var þarna mynd af 220 bíl 1951 módel og 220 Ponton 1955. Ég setti 300 bílinn í kaflann með 170 og 220 bílunum og Pontoninn fór í viðeigandi kafla.
- 13.09.2002 - Fyrir nokkrum árum auglýsti ég eftir varahlutum í W108/W109 bíla og í mig hringdi maður sem sagðist eiga SEL sem staðsettur var í gám á Höfn í Hornafirði. Hann bauð mér bílinn á 300.000kr, sem mér fannst full mikið miðað við lýsingar á ástandinu (reyndar var ég ekki heldur að leita af heilum bíl). Ég var síðan staddur á verkstæðinu Réttir-bílar í Kópavogi í síðustu viku þegar Jóhannes Norðfjörð sýndi mér ljósmyndir af bíl sem honum hafði verið boðið á 200.000kr. Bíllinn var í gám úti á landi og finnst mér ákaflega líklegt að hér sé um fyrrnefndan bíl að ræða. Bíllinn er á loftpúðum og er hér þess vegna um að ræða 300 bíl og þar sem hann er 1972 módel þá er þetta annaðhvort 300SEL 3.5 eða 300SEL 4.5. Sennilegra finnst mér það fyrrnefnda, enda var 4.5L bíllin aðeins fluttur til Bandaríkjanna.
- 08.09.2002 - Ég var farinn að halda að litlu hekkararnir væru orðnir útdauðir í íslenskri bílaflóru. Það eru að vísu nokkur lík á bílahaugunum í Straumsvík og eflaust bjartsýni að halda lífgunartilraunir á þeim verði reyndar eða munu skila árangri á næstunni. Það kom mér þess vegna skemmtilega á óvart þegar ég fyrir tilviljun rak augun í afturendann á einum slíkum í Kópavogi fyrir skömmu. Þetta er hvítur 190D sem er ágætlega útlítandi og hefur verið á númerum í fyrra því hann er með skoðunarmiða “02” í framrúðunni. Ekki náðist tal af eiganda svo ég varð að ljósmynda bílinn án þess að hafa leyfi eiganda.
- 21.08.2002 - Þegar ég átti leið inn í Ræsi í mogurn rak ég upp stór augu, því að í stæði fyrir framan sýningarsalinn var sannkallaður furðubíll. Um var að ræða mjög svo sérkennilega málaðan w114 bíl af lengri gerðinni. Sjón er sögu ríkari, því í þessi bíll er kominn í Strich-Acht kaflann.
- 20.08.2002 - Ég sá fyrr í mánuðinum í fyrsta skipti svarta Pagodu þar sem hún var á verkstæði í Kópavoginum. Þessi bíll var fluttur inn frá Bandaríkjunum um miðjan síðasta áratug og hefur staðið lengi inn. Ég átti síðan leið inn í Ræsi í vikunni þar sem minn eigin bíll var í stillingu og sá þar umrædda Pagodu og náði nokkrum myndum í rigningunni.
- 17.08.2002 - Ég hef verið að hugsa um að setja upp kafla fyrir 116 bílinn í talsverðan tíma, en jarnframt verið dálítið tvístígandi að byrja að taka myndir þar sem þetta eru ekki beinlínis fornbílar enn sem komið er. Reyndar er orðið óskaplega lítið eftir af þessum bílum og ég ákvað þessvegna að hefjast handa. Í þessu skyni er kominn sérstakur kafli fyrir 116 bílinn og til að byrja með eru bílarnir 3.
- 08.08.2002 - Frétti af W108 bíl (280SE 3.5 '72) við Ásgarð í Reykjavík og fór strax á staðinn og tók nokkrar myndir. Bíllinn er grár eða silfurlitaður með sílsalista/drullusokka, dráttarkúlu og er á álfelgum. Persónulega finnst mér þessi litur á bílnum ásamt aukahlutunum gera hann svona freka að "young-timer" (<25ára) en "old-timer" (>25ára).
- 28.07.2002 - Tók nokkrar ljósmyndir af W108, 280SE sem stóð í sólinni við Gnoðarvog. Ég átti leið þarna hjá þegar ég rak augun í bílinn og svo heppilega vildi til að ég var með myndavélina í fartaskinu. Myndirnar eru í Keinflosse kaflanum.
- 18.07.2002 - Nokkrir alræmdir Benz-dellukallar fóru í vísindaferð í Kópavoginn til að kanna framgang mála við uppgerð á 280SE'71 þar í bæ. Bíllinn er í góðum höndum Ólafs Kolbeinssonar sem hefur unnið að uppgerð hans undanfarin ár. Hann hefur nú látið sprauta bílinn og tími var kominn til að ljósmynda gripinn sem lengi hefur staðið til. Bíllinn hefur nú fengið sinn bás í Keinflosse kaflanum. Á heimleiðinni var komið í á Álhólsveginum þar sem tveir hekkarar standa úti og bíða þess að samlagast jarðveginum. Nokkrar ljósmyndir voru teknar og þeim hefur verið bætt í Heckflosse kaflann.
- 28.06.2002 - Nýjar myndir af 300SEL 6.3 eru komar í keinflosse kaflann. Hann er nú að mestu að verða klár og aðeins á eftir að setja í hurðaspjöld og eitthvað smávægilegt meira. Skrímslið er í gangi á myndunum og er örugglega farið að klægja í bensíntankinn eftir 17 ára kyrrsetu.
- 20.05.2002 - Á afmælissýningu Fornbílaklúbbsins voru sýndir tveir gullfallegir Benz sportbílar. Báðir bílarnir eru rauðir og er annar þeirra Pagoda 280SL 1968 og hinn 190SL 1958. Tilurð 190SL bílsins kom mér dálítið á óvart, þar sem ég bjóst eiginlega ekki við að nokkur maður hér á landi væri líklegur til að leggja út í að fjárfesta í jafn dýru leikfangi. Það var þess vegna enginn kafli fyrir á síðunni sem passaði beint fyrir þann bíl. Í stað þess að stofna nýjan kafla sérstaklega fyrir bílinn, þá ákvað ég að fella hann inn í kaflann með Pagodunni (enda bæði SL bílar, en af sitt hvorri kynslóðinni).
- 11.05.2002 - Á skoðunardegi Fornbílaklúbbsins hjá Aðalskoðun í Hafnarfirði birtist W114 bíll sem ég hafði ekki séð áður. Þetta er hvítur 280C bíll í þokkalegu ástandi. Myndir af bílnum eru neðst í Strich-Acth kaflanum.
- 09.05.2002 - Ég hafði frétt að bíll föðurbróður míns Geirs Þorsteinssonar, 300SEL 6.3 væri falur fyrir einhverja svimandi upphæð og langaði að sjá gripinn og ljósmynda. Ég hafð þessvegna samband við eigandann og fékk leyfi til að ljósmynda bílinn sem var geymdur í lítilli skemmu í Garðabæ. Fyrir mér hefur þessi bíll alltaf verið hálfgerð goðsögn og er hann tvímannalaust upphafið af minni eigin bíladellu. Einhvernvegin er endalaust til af sögum tengdum þessum bíl. Þegar ég var að ljósmynda bílinn vildi eigandinn endilega að ég biði í hann sem ég gerði í hálfgerðri rælni. Þar sem ég var ekki kominn á staðinn til að kaupa bíl varð ekkert úr kaupum þann daginn, en nokkrum dögum seinna hafði ég samband og fékk að skoða bílinn með það fyrir augum að kaupa hann. Málin enduðu þannig að ég keypti bílinn án þess þó að fá svima af upphæðinni. Myndir af bílnum eru nú neðst í Keinflosse kaflanum.
- 20.04.2002 - Fór með Rúnari á Geymslusvæðið í Hafnarfirði en hann er þar með heilan helling af Benzum. Mest eru þetta w123, w114/w115 og w116 bílar, en hann er einnig með einn bláan 190c/1963 hekkara sem ég tók myndir af og bætti í Heckflosse kaflann. Við stálumst einnig til þess að keyra um svæðið til þess að leita af örðum bílum og uppskárum tvo aðra hekkara. Bæði eru þetta 190 bílar, annar grár og hinn ljósblár. Grái bíllinn var kominn í Heckflosse kaflann áður og er þar mynd af honum áður en honum var lagt, en bíllin er orðinn mjög dapur í dag. Hinn 190 bíllinn er ágætur efniviður og forvitnilegt væri að vita hvað stendur til með þann bíl. Við hlið hans stendur annar eins bíll sem greinilega er ætlaður í varahluti. Þarna var einnig einn w108 bíll sem einhvern tíman hefur verið rifinn og gluðað yfir en aldrei kláraður (e.t.v. vegna misheppnaðar sprautunar). Bíllinn hefur greinilega staðið lengi úti og er orðinn mjög ryðgaður í botninn og mosavaxinn að innan.
- 14.04.2002 - Tók myndir af garðskrautinu hans Rúnars Sigurjónssonar í Miðtúninu. Hann er þar með Ponton undir segli sem hann segist ætla að byrja á fljótlega. Hann er búinn að rífa bílinn en hurðir, bretti og annað er í skúrnum hjá honum.
|